Naflaló

Mögnum svo seið
að leið verði greið

fimmtudagur, apríl 01, 2004

Þar sem ég sat við innhverfa íhugun í gærkveldi og pússaði kristalskúluna hvelfdist yfir mig holskefla ímynda, myndbrota, spádóma, fyrirboða og fordóma. Gerist gjarnan rétt eftir fréttir. Þyki ég nú almennt mjög forspá mennskja og vel hrínin en að þessu sinni þótti mér fullmikið af hinu góða og sjaldan hafa skilaboðin verið jafn skýr:

* Hádegi - álfar koma til byggða og taka stefnuna á Smárann. Aldrei að vita nema auðæfi hlotnist þeim heppnu einstaklingum sem koma sér fyrir á krossgötum þar sem greina má 4 stórverslanir í senn
* Uppistand landsþekktra látinna Íslendinga í Gamla kirkjugarðinum kl. 13:30
* Ekki ein einasta heimsfræga kvikmynda/sjónvarps/poppstjarna mun koma til landsins í dag
* Mál og menning var að taka upp glænýja sendingu af orðabók fyrir þá sem tala tungum
* Í dag og aðeins í dag geta Naflalóarnornir flogið - þó er sá hængur á að nauðsynlegt er að fá leyfi hjá flugumferðastjórn fyrir flugtak
* Halldór Blöndal, forseti Alþingis, hefur undanfarnar vikur komið sér upp dýrindis naflaló og er í dag tilbúin til að afhenta hana þeirri heppnu norn sem hælir honum best fyrir þingstörf
* Ein bóla á tungu minni engin á morgun
* Húsdýragarðurinn - kl. 17:35. Guttormur ofurboli mun svipta sig ham sínum og sýna sína sönnu ásjónu. Selurinn Snorri reynist vera ófríð hafmeyja.
* Yfirnornin verður í bráðri lífshættu um kvöldmatarleytið og verður aðeins hægt að bjarga lífi hennar með því að dæla í hana hvítvíni í óhóflegu magni - ein flaska á mann ætti að duga
* Með því að borða hvítlauk og drekka kakó með er hægt að verða ósýnilegur. Aukaáhrif eru ofsjónir nærstaddra (undir áhrifum frá hvítlauks/kakófnykinum) sem þykjast sjá þig.
* Loksins er hægt að verða sér út um haðaspjón með 30% afslætti í Byggt og búið. Takmarkað upplag. Nú er um að gera að láta ekki tækifærið sér úr greipum renna. Nauðsynlegt öllum alvöru Naflalóarnornum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home